Vertu með í Vakanum

 

Vakinn er  gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verkefninu er stýrt af Ferðamálastofu.  Þau fyrirtæki sem taka þátt fá óháðan þriðja aðila til að skoða og taka út starfsemi og þjónustu fyrirtækisins, fá staðfestingu á því sem vel er gert og tækifæri til að bæta það sem betur má fara.

  • Helsti ávinningur af vottun er:

  • Markviss úttekt byggð á gæða- og umhverfisviðmiðum sem hafa verið samþykkt af sérfræðingum á hverju sviði.

  • Staðfesting á því að fyrirtækið sinni gæða- og umhverfismálum af fagmennsku og heiðarleika.

  • Markaðslegur ávinningur og samkeppnisforskot með viðurkenningu Vakans.

  • Betri starfshættir og aukin fagmennska.

  • Auknar líkur á að uppfylla væntingar viðskiptavina.

  • Munum að:

  • Náttúran og orðspor landsins eru það mikilvægasta sem við eigum.

  • Ferðamenn leita frekar til fyrirtækja sem sýna ábyrgð og leggja sitt af mörkum til umhverfis- og samfélagsmála.

  • Gæða-, umhverfis- og öryggismál eru lykilþættir í framtíð íslenskrar ferðaþjónustu.

  • Vakinn er öflugt verkfæri til að auka fagmennsku og gæði í ferðaþjónustu.

  • Merki Vakans er gæðastimpill sem nýtist sem markaðstæki fyrir vottuð fyrirtæki .

  • Samkeppnishæfni áfangastaða byggir á mörgum þáttum, svo sem ímynd, gæðum, öryggi og áherslum á umhverfismál og sjálfbærni. Frammistaða fyrirtækja sem taka á móti ferðamönnum hefur áhrif á orðspor Íslands sem ferðamannalands auk þess sem gæðaþjónusta eykur líkur á ánægju viðskiptavina og getur verið leið til þess að skapa fyrirtækjum samkeppnisforskot og sérstöðu á meðal samkeppnisaðila.

  • Það liggja mikil tækifæri í því að auka gæði í íslenskri ferðaþjónustu fyrir áfangastaðinn Ísland. Í því verkefni er Vakinn, gæða- og umhverfisvottun ferðaþjónustunnar, öflugt verkfæri sem vert er að kynna sér nánar.

    Umsóknarferli

    Vilt þú fá vottun fyrir fyrirtækið þitt?

    • Mikilvægt er að undirbúa sig vel með því að fara vandlega yfir gæða- og umhverfisviðmið sem eiga við starfsemi fyrirtækisins.
    • Starfsfólk Vakans veitir upplýsingar um umsóknarferli.

    Gæðaviðmið

    Þú skoðar gæðaviðmiðin

    Fyrir þá sem eru með gistingu:

    • Almenn gæðaviðmið 
    • Viðeigandi gæðaviðmið fyrir hverja tegund gistingar.


    Fyrir þá sem eru með ferðaþjónustu aðra en gistingu:

    • Almenn gæðaviðmið
    • Sértæk gæðaviðmið sem eiga við starfsemi fyrirtækisins

    Umsókn

    Þú sendir inn umsókn

    Sótt er um vottun skv. Vakanum á vefsíðu Vakans. 

    Með umsókn samþykkja forsvarsmenn skilmála Vakans.

    Mikilvægt er að kynna sér nánari upplýsingar um umsóknar- og vottunarferlið.

    Ýmis gögn

    HVAÐA GÖGN ÞURFA AÐ VERA TIL?

    Í almennum gæðaviðmiðum eru talin upp ýmis gögn sem þurfa að vera til fyrirtækjum sem sækjast eftir vottun Vakans. Dæmi um nauðsynleg gögn sem þarf að senda inn til skoðunar-/vottunarstofu:

    • Gæðahandbók/starfsmannahandbók
    • Öryggisáætlanir
    • Opinber leyfi sem eiga við reksturinn t.d. frá Ferðamálastofu, Samgöngustofu, Sýslumannsembætti, o.fl.
    • Nafnalisti starfsmanna/leiðsögumanna með yfirliti um námskeið sem þeir hafa lokið t.d. skyndihjálparnámskeið.
    • Afrit af ráðningarsamningi starfsmanns án persónuupplýsinga.
    • Staðfesting á því að ábyrgðartrygging sé í gildi.
    • Sjá nánar hér fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu.
    • Sjá nánar hér fyrir gistingu.

    Úttekt

    Úttekt hjá skoðunar-/vottunarstofu

    Úttekt skiptist í tvö þrep:

    1. Skoðun á gögnum.

    2. Vettvangsheimsókn.

    Þau almennu gæðaviðmið sem eru stjörnumerkt fela í sér að senda þurfi gögn og upplýsingar til úttektarfyrirtækis.

    Ef úttektaraðili metur gögnin fullnægjandi er næsta skref vettvangsheimsókn hjá viðkomandi fyrirtæki þar sem farið er yfir valin almenn og sértæk gæðaviðmið og kannað hvort að starfsemin sé í samræmi við skrifleg gögn og upplýsingar.

     

     

    Vottun

    Vottun Vakans

    Ferðaþjónusta önnur en gisting:

    Uppfylla þarf öll almenn og viðeigandi sértæk gæðaviðmið til þess að fá vottun Vakans.

    Gisting:

    Uppfylla þarf öll almenn og viðeigandi gæðaviðmið fyrir hvern gistiflokk til þess að fá vottun Vakans.

    Stjörnuflokkun býðst fyrir þriggja til fimm stjörnu hótel en aðrar tegundir gistingar fá vottun (gæðavottað gistiheimili, gæðavottað hostel o.s.frv.).

     

    Fleiri fréttir