Fyrirtækið Special Tours hefur á ný hlotið gæða- og umhverfisvottun Vakans. Það var stofnað árið 1996 og hefur þannig í nær 30 ár boðið upp á sjóferðir frá Reykjavík fyrir bæði erlenda og íslenska ferðamenn. Meðal annars hvalaskoðun, lundaskoðun, sjóstangaveiði, norðurljósaferðir og fleira. Síðastliðið sumar var einnig byrjað að bjóða upp á hvalaskoðun frá Akureyri.
„Við hjá Special Tours erum stolt af því að hafa endurnýjað gæða- og umhverfisvottun okkar í Vakanum,“ segir Þóra Matthildur Þórðardóttir, sölu og markaðsstjóri. „Sem hluta af sjálfbærnistefnu okkar skuldbindum við okkur til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og halda áfram að bæta gæði þjónustunnar við alla okkar farþega. Þegar við horfum til næstu 30 ára þá ætlum við að halda áfram að bjóða farþegum okkar upp á skemmtilegar upplifanir og stefnum að því að verða enn sjálfbærari,“ bætir hún við.
Ferðamálastofa óskar fyrirtækinu og starfsmönnum þess innilega til hamingju með vottunina.