Saga Vakans

Aðilar í ferðaþjónustu á Íslandi höfðu í mörg ár rætt sín á milli um nauðsyn á samræmdu gæðakerfi sem myndi henta fyrir allar greinar í ferðaþjónustu á Íslandi. Árið 2008 fól því Iðnaðarráðuneytið Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að gerð slíks kerfis og var ráðgjafafyrirtækið Alta fengið til að gera úttekt á nokkrum slíkum kerfum víða um heim. Ákveðið var að byggja á kerfi því sem unnið er eftir í ferðaþjónustu á Nýja Sjálandi og kallast Qualmark, en kerfið hefur verið staðfært og aðlagað að íslenskum aðstæðum.

Unnið í náinni samvinnu

Verkefnið var upphaflega unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálasamtök Íslands og þannig skapaðist breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk sem gæða- og umhverfismál eru. Á árinu 2010 var haldin samkeppni um nafn og merki kerfisins og var ákveðið að velja nafnið Vakinn, sem þótti vera mjög lýsandi fyrir verkefnið en kerfinu er einmitt ætlað að vaka yfir frammistöðu þeirra sem starfa í greininni og vekja og viðhalda áhuga á gæðum íslenskrar ferðaþjónustu. Eftir mikla samvinnu og samráð við hagaðila tók Vakinn til starfa í febrúar 2012. 

Verkfæri ferðaþjónustuaðila

Kerfið er fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi ásamt því að stuðla að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni meðal ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi.  Að fara markvisst í gegnum gæða- og umhverfisviðmið Vakans er leiðbeinandi og lærdómsríkt ferli. Ennfremur er að finna á vef Vakans margvísleg hjálpargögn, fræðsluefni, gátlista, eyðublöð og dæmi sem leiðbeina um það hvernig uppfylla má gæða- og umhverfisviðmiðin.