Sjálfbær ferðaþjónusta og Global Sustainable Tourism Council

Gæða- og umhverfisviðmið Vakans byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar eins og hún birtist í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun "Our common future" eða Brundtland skýrslunni eins og hún er oft kölluð. Þar kemur fram að sjálfbær þróun er:


    ...þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum


 

Áhersla er lögð á þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega.  Sjálfbær þróun gerir kröfu um jafnvægi milli stoðanna að því leyti að engin ein fái meira vægi en önnur. Innan umhverfisins lifir samfélagið og innan samfélagsins verður hagkerfið til. Við hverja ákvörðunartöku fyrirtækis þarf því að taka tillit til samfélagslegra og umhverfislegra hagsmuna til jafns við efnahagslega hagsmuni.

Sjálfbær ferðaþjónusta

Sjálfbær ferðaþjónusta er dótturhugtak sjálfbærrar þróunar, þ.e. það varð til þegar aðilar innan ferðaþjónustunnar hófu að tengja umfjöllun Brundtland skýrslunnar við atvinnugreinina. Það má því segja að sjálfbær ferðaþjónusta sé:


    ...hvers konar þróun eða starfsemi í ferðaþjónustu sem ber virðingu fyrir umhverfinu, tryggir verndun náttúrulegra og menningarlegra auðlinda til langs tíma og er ásættanleg og réttlát frá félagslegu og efnahagslegu sjónarmiði


 

Skilgreiningin kemur úr bókinni Sustainable tourism management frá 1999 og er eftir J. Swarbrook. Þýðingin kemur frá  Dr. Rannveigu Ólafsdóttur og birtist t.d. í skýrslunni hennar "Umhverfisstjórnun - tæki til sjálfbærrar ferðaþjónustu".

 


Alþjóðaráðið um sjálfbæra ferðaþjónustu – GSTC.

Global Sustainable Tourism Council (GSTC) var stofnað árið 2007, með það að markmiði að setja saman og þróa alþjóðleg viðmið og leiðbeiningar fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim.

Starfsemi GSTC er margvísleg

Fyrir utan þróun og útgáfu viðmiða um sjálfbæra ferðaþjónustu, má nefna að GSTC sér um faggildingu fyrir vottunarstofur, mat og viðurkenningu á fyrirliggjandi stöðlum og vottunarkerfum (recognition), ráðgjöf fyrir stjórnvöld í stefnumótun, námskeið, fræðslu o.fl. 

Ferðamálastofa er aðili

Árið 2024 gerðist Ferðamálastofa aðili að GSTC en meðal annarra nágrannalanda má t.d. nefna Svíþjóð, Finnland og Noreg. Önnur lönd sem Ísland ber sig gjarnan saman við eru einnig á listanum eins og t.d. Nýja Sjáland, Costa Rica og Sviss.

Meðal annarra aðildafélaga má t.a.m. nefna: Booking.com, AirBnB, Easy Jet Holidays, TUI, Green Key, Earth Check, Green Globe o.fl. o.fl.

Viðmið GSTC byggja á fjórum megingrunnstoðum sjálfbærni og skiptast svona:

  • A. Sjálfbær stjórnun (Sustainable Management) ​
  • B. Félags-og hagfræðileg áhrif (Socioeconomic Impacts) ​
  • C. Menningarleg áhrif (Cultural Impacts) ​
  • D. Umhverfisáhrif (Environmental Impacts).​

Í dag eru til fjögur sett af viðmiðum:

  • Viðmið fyrir áfangastaði (destination criteria).​
  • Viðmið fyrir greinina (industry criteria) fyrir hótel annarsvegar og ferðaskrifstofur og skipuleggjendur hinsvegar.​
  • Viðmið fyrir MICE.
  • Viðmið fyrir skemmtigarða, þjóðgarða og söfn.

Viðmið alþjóðaráðsins um sjálfbærni í ferðaþjónustu

Ferðamálastofa hefur látið þýða viðmið GSTC, fyrir ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur, yfir á íslensku og er vonin sú að þau muni geta varpað betra ljósi á þær áherslur og kröfur sem alþjóðaráðið setur um sjálfbæra ferðaþjónustu.

Að kröfu GSTC er um að ræða þýðingu sem gerð er af löggiltum skjalaþýðanda.