Sjálfbær ferðaþjónusta

Gæða- og umhverfisviðmið Vakans byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar eins og hún birtist í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun "Our common future" eða Brundtland skýrslunni eins og hún er oft kölluð. Þar kemur fram að sjálfbær þróun er:


    ...þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum


 

Áhersla er lögð á þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar, efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega.  Sjálfbær þróun gerir kröfu um jafnvægi milli stoðanna að því leyti að engin ein fái meira vægi en önnur. Innan umhverfisins lifir samfélagið og innan samfélagsins verður hagkerfið til. Við hverja ákvörðunartöku fyrirtækis þarf því að taka tillit til samfélagslegra og umhverfislegra hagsmuna til jafns við efnahagslega hagsmuni.

Sjálfbær ferðaþjónusta

Sjálfbær ferðaþjónusta er dótturhugtak sjálfbærrar þróunar, þ.e. það varð til þegar aðilar innan ferðaþjónustunnar hófu að tengja umfjöllun Brundtland skýrslunnar við atvinnugreinina. Það má því segja að sjálfbær ferðaþjónusta sé:


    ...hvers konar þróun eða starfsemi í ferðaþjónustu sem ber virðingu fyrir umhverfinu, tryggir verndun náttúrulegra og menningarlegra auðlinda til langs tíma og er ásættanleg og réttlát frá félagslegu og efnahagslegu sjónarmiði


 

Skilgreiningin kemur úr bókinni Sustainable tourism management frá 1999 og er eftir J. Swarbrook. Þýðingin kemur frá  Dr. Rannveigu Ólafsdóttur og birtist t.d. í skýrslunni hennar "Umhverfisstjórnun - tæki til sjálfbærrar ferðaþjónustu".