Markmið Vakans er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan greinarinnar.
Gæðakerfið fyrir þann hluta Vakans sem snýr að allri þjónustu við ferðamenn annarri en gistingu, byggir á tvennskonar viðmiðum:
Uppfylla þarf almenn gæðaviðmið og sértæk gæðaviðmið sem eiga við starfsemina.
Árangur í ferðaþjónustu byggir meðal annars á öflugu markaðsstarfi en sú vinna er til lítils ef upplifun gestanna verður ekki í samræmi við væntingar. Með ferða- og samskiptasíðum (t.d. Trip Advisor, Facebook, Twitter o.fl.) hefur rödd neytandans fengið aukið vægi og gæðamál orðið enn mikilvægari. Þegar fólk tekur ákvarðanir um ferðalög horfir það í sífellt ríkara mæli til þess sem aðrir ferðalangar á undan þeim hafa upplifað. Hver var þeirra upplifun? Stóðst ferðin væntingar? Til að auka líkurnar á góðri upplifun gesta skiptir mestu að undirbúningur og skipulag sé vandað. Í þeirri vinnu eru gæðaviðmið Vakans gott verkfæri.
(Könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna á Íslandi 2018)