Vakinn er gæða- og umhverfisvottun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi sem hefur verið í boði síðan 2012. Ferðamálastofa hefur umsjón með Vakanum en gæða- og umhverfisviðmiðin hafa verið þróuð í góðu samstarfi við hagaðila í greininni. Ferðamálastofa er með samninga við þrjár skoðunar- og vottunarstofur sem sjá um framkvæmd úttekta.
Markmiðið með Vakanum er að bæta gæði, auka öryggi og stuðla að sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar á Íslandi.
Vakinn var í upphafi byggður á Qualmark, nýsjálensku gæða- og umhverfiskerfi fyrir ferðaþjónustu. Mikil vinna hefur verið lögð í að staðfæra kerfið og laga að íslenskum aðstæðum og samráð haft við fjölda aðila úr ferðaþjónustu og sérfræðinga á ýmsum sviðum, bæði í upphafi og í gegnum árin, m.a. við hverja endurskoðun viðmiðanna.
Viðmið Vakans veita leiðsögn og þeim fylgja ýmis hjálpargögn sem má nýta til að bæta starfshætti í fyrirtækinu. Við þróun viðmiða fyrir ákveðnar tegundir afþreyingar hefur m.a. verið horft til ISO staðla fyrir ævintýraleiðsögn svo og viðmiða frá samtökunum Adventure Travel Trade Association (ATTA). Þá hefur verið horft til viðmiða Alþjóðaráðsins um sjálfbæra ferðaþjónustu, Global Sustainable Tourism Council (GSTC). Vakinn er því einnig verkfæri á leið til sjálfbærni meðal annars í gegnum gátlista sem fylgir viðmiðunum og ber nafnið Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu.
Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel byggja á gæðaviðmiðum frá evrópska Hotelstars kerfinu, sem leitt er af Hotrec samtökunum. Viðmið fyrir aðra gistiflokka Vakans byggja upphaflega á viðmiðum Qualmark en hafa líkt og önnur viðmið verið þróuð og aðlöguð að íslenskum aðstæðum.
Fyrirtæki með vottun þurfa að uppfylla margvísleg viðmið er varða gæði, öryggi, umhverfismál og sjálfbærni. Vottunin veitir ferðaþjónustufyrirtækjum aðhald og hvatningu til að viðhalda háum gæðastöðlum og til að sýna ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi.
Fjölmörg atriði í gæða- og umhverfisviðmiðum Vakans svo og gátlistanum Á leið til sjálfbærrar ferðaþjónustu, endurspegla þau markmið sem fram koma í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Alda Þrastardóttir
|
Áslaug Briem
|
Elías Bj. Gíslason
|
|
Á Ferðamálastofu er starfandi úrskurðarnefnd sem hefur það hlutverk að taka afstöðu í álitamálum og leysa úr ágreiningsmálum sem tengjast úttektum og upp kunna að koma á milli umsækjenda/þátttakanda í Vakanum og úttektaraðila.
Ef koma þarf á framfæri ábendingum eða kvörtun vegna vottaðra fyrirtækja má senda þær á netfangið vakinn@vakinn.is en viðkomandi vottunar- og skoðunarstofa fer almennt með meðferð slíkra kvartana.
Ferðamálastofa vill koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sérfræðinga úr ferðaþjónustu sem hafa komið að gerð gæða- og umhverfisviðmiðanna.