Fyrirtækið Lotus Car Rental hefur nýverið hlotið gæða- og umhverfisvottun Vakans. Bílaleigan, sem er með höfuðstöðvar í Reykjanesbæ, var stofnuð árið 2014 og hefur vaxið og dafnað með árunum. Félagið er með um 900 bíla í flota sínum og eru yfir 25% af þeim rafmagns- og tengiltvinnbílar.
Að sögn Sigurbergs Magnússonar hjá Lotus Car Rental hefur fyrirtækið ávallt sett viðskiptavini sína í forgang og er mikil áhersla lögð á framúrskarandi þjónustu og gott starfsumhverfi fyrir starfsmenn. Félagið hefur lagt aukna áherslu á umhverfismál undanfarin ár og stuðning við nærumhverfi. Lögð er mikil áhersla á að fræða ferðamenn um þær umferðareglur sem gilda hér á landi, virðingu við náttúruna og hvað beri að varast við akstur hér á landi.
Félagið leggur einnig mikið upp úr öryggismálum og hafa allir starfsmenn félagsins hlotið kennslu í skyndihjálp og brunavörnum. Lögð er áhersla á að allir starfsmenn sem starfa við bílaþrif og á verkstæði noti viðeigandi öryggisbúnað og að öll tæki sem notuð eru séu örugg og reglulega yfirfarinn.
Félagið ákvað að sækjast eftir vottun Vakans til staðfestingar á þeirri vinnu sem félagið hefur unnið á undanförnum árum í umhverfis- og gæðamálum. Innleiðing gæða- og umhverfisstaðla Vakans hjálpaði félaginu að betrumbæta verkferla og innleiða nýja verkferla í gæða- og umhverfismálum. Einnig bindur félagið vonir við að vottun Vakans muni hjálpa til við að viðhalda því góða orðspori sem félagið hefur áunnið sér í gegnum tíðina.
Ferðamálastofa óskar eigendum og starfsfólki innilega til hamingju með glæsilegan árangur.