VAKANUM var formlega ýtt úr vör í Sunnusal Radisson Blu Hótel Sögu í dag, þriðjudaginn 28. febrúar. Margir góðir gestir mættu til að fagna þessum merka áfanga.
Metnaðarfullt verkefni fyrir alla ferðaþjónustu
Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafa um nokkurt skeið unnið að þróun metnaðarfulls gæðakerfis fyrir íslenska ferðaþjónustu og binda aðstandendur kerfisins miklar vonir við að VAKINN muni efla gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja.
Unnið í náinni samvinnu
VAKINN er afsprengi þróunarverkefnis sem iðnaðarráðuneytið fól Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að. Verkefnið er unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands og þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk.
Ávörp á fundinum á Hótel Sögu fluttu:
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri
Oddný Harðardóttir, iðnaðarráðherra
Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Unnur Halldórsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Íslands
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur
Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu
Heimasíða VAKANS, vakinn.is, var opnuðformlega á fundinum.
Á myndinni kynnir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, VAKANN en hann hefur leitt ferlið við undirbúning og innleiðingu kerfisins.