Áslaug Briem verkefnisstjóri gæðamála Vakans afhendir Karen Maríu Jónsdóttur viðurkenningu Vakans sl. föstudag. Mynd BEB.
Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti í Reykjavík hefur lokið innleiðingu Vakans með glæsibrag en auk gæðaflokkunar þá hlýtur miðstöðin brons í umhverfisþætti Vakans. Áður hafa sjötíu og eitt ferðaþjónustufyrirtæki hlotið Vakann, þar af eru fimmtíu með umhverfisflokkun. Yfir áttatíu ferðaþjónustufyrirtæki eru nú í úttektarferli Vakans.
Samkeppnishæfni áfangastaða byggir á mörgum samhangandi þáttum, s.s. ímynd, gæðum, öryggi og umhverfismálum. Upplýsingamiðstöð ferðamanna er hjartað í þjónustu borgarinnar við erlenda ferðamenn og hefur frammistaða miðstöðvarinnar þannig áhrif á orðspor Reykjavíkur sem eftirsóknaverðs áfangastaðar. Gæðaþjónusta eykur líkur á ánægju viðskiptavina miðstöðvarinnar og er leið til þess að skapa borginni samkeppnisforskot og sérstöðu meðal annara borga, sagði Karen María Jónsdóttir deildarstjóri UMFR þegar hún tók við viðurkenningunni.
Höfuðborgarstofa rekur Upplýsingamiðstöð ferðamanna (UMFR) með fjármagni frá Reykjavíkurborg og Ferðamálastofu. UMFR er opin alla daga ársins frá kl. 8-20 fyrir utan jóladag. UMFR hefur verið í Aðalstræti 2 frá árinu 2003 en í haust flytur starfsemin í Ráðhús Reykjavíkur. Áætlað er að hálf milljón ferðamanna muni sækja þjónustu miðstöðvarinnar árið 2016.