Fyrsta hluta VAKANS var formlega hleypt af stokkunum um miðjan desember þegar umhverfisviðmið kerfisins voru kynnt.
Formlega kynntur í febrúar
VAKINN mun formlega verða kynntur og fara í notkun í febrúar 2012. Ástæða þess að umhverfisviðmiðin voru kynnt á undan öðrum hlutum kerfisins var sú að þættir í umhverfishluta þess gera ráð fyrir að fyrirtæki hafi stundað reglubundnar mælingar á tilteknum þáttum í 6-12 mánuði áður en úttekt á sér stað. Eftir kynningu umhverfisviðmiðana gátu fyrirtæki þannig farið að vinna samkvæmt umhverfisþáttum VAKANS.
Siðareglur VAKANS
Við sama tækifæri voru einnig kynntar siðareglur VAKANS en öll fyrirtæki sem þátt taka í verkefninu skulu samþykkja og fylgja þeim. Siðareglurnar eru í 15 liðum og skulu þær hanga uppi á áberandi stað hjá viðkomandi fyrirtæki. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, kynnti kerfið á fundi á Hótel Reykjavík Natura og afhenti við það tækifæri nokkrum lykilaðilum sem standa að kerfinu, nýju siðareglurnar. Á meðfylgjandi mynd eru þær Unnur Halldórsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Íslands; Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar; Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.