Vakafyrirtækjum á Austurlandi fjölgaði í dag þegar Tinna Adventure á Breiðdalsvík lauk innleiðingarferli með glæsibrag og fékk viðurkenningar sínar afhentar.
Tinna Adventure hefur undanfarin ár boðið upp á fjölbreyttar ferðir um Austurland á breyttum jeppum ásamt jóga-gönguferðum á svæðinu. Markmiðið hefur frá upphafi verið að auka framboð af gæðaafþreyingu á Austurlandi.
Hrefna Ingólfsdóttir Melsteð hefur leitt innleiðingu fyrirtækisins í Vakann. „Okkur er mjög annt um náttúru landsins og samfélag. Í ferðum með gesti sína um landið teljum við alla aðila ferðaþjónustunnar bera mikla ábyrgð á verndun náttúrunnar og sjálfbærni í samfélagslegri nálgun. Það er á grunni þessarar hugsunar sem við höfum undanfarna mánuði unnið hörðum höndum að innleiðingu Vakans við rekstur fyrirtækisins,“ segir Hrefna.
Hún bætir við að fagnaðarefni sé að sjá aukna áherslu á ábyrga ferðaþjónustu á Íslandi. „Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálina í þeirri vegferð að tryggja öryggi og góða þjónustu við þann fjölbreytta hóp ferðamanna sem sækir landið heim,“ segir Hrefna.
Viðurkenningunni fylgja bestu hamingjuóskir með áfangann.