Active North var upphaflega stofnað sem afþreyingarfyrirtæki og til að byrja með var opnuð hestaleiga sem hefur aðsetur innan Vatnajökulsþjóðgarðs í mynni Ásbyrgis. Fyrirtækið er í eigu Hrundar Ásgeirsdóttur og Rúnars Tryggvasonar. Starfsemin fer fram að sumarlagi frá 15. júní 31. ágúst og boðið er upp á tvenns konar hestaferðir. Tveggja klukkustunda ferð inn í botn Ásbyrgis með leiðsögn og 4 klukkustunda ferð þar sem m.a. einn stærsti hellir norðausturlands er skoðaður. Eigendur stefna á að útvíkka starfsemina í framtíðinni og bjóða upp á fjölbreyttari afþreyingu.
Á myndinni eru Karin Charlotta Victoria Englund, Rúnar Tryggvason og Hrund Ásgeirsdóttir hjá Active North
Jarðböðin voru opnuð fyrir 10 árum og eru nú einn vinsælasti áningarstaður ferðamanna á Norðurlandi. Á síðasta ári var heildarfjöldi gesta um 100.000, þar af 80% erlendir ferðamenn. Í Jarðböðunum er frábært tækifæri til þess að baða sig í jarðvatni lónsins sem hefur einstaka og heilnæma upplifun ásamt því að gefa vellíðan af völdum efnasamsetningu vatnsins. Þá eru á staðnum gufuböð sem eru byggð beint ofan á jarðhitasprungu, gufuböð er vel þekkt í Jarðbaðshólum og má finna sögur allt frá 15 öld þess efnis að biskupar landsins böðuðu sig í gufum hólanna.
Að auki er boðið er upp á nuddþjónustu, bæði í sérstöku nuddherbergi og úti í baðlóninu sjálfu. Veitingastaðurinn Kaffi Kvika er með sæti fyrir allt að 120 gesti auk u.þ.b. 50 sæti utandyra.
Á myndinni eru Gunnar Atli Fríðuson og Bergþóra Kristjánsdóttir hjá Jarðböðunum
Fjallasýn er fjölskyldufyrirtæki sem rekur hópferðaþjónustu og ferðaskrifstofu og er staðsett við Smiðjuteig í Reykjahverfi í nágrenni Húsavíkur. Fyrirtækið býður þjónustu sína um allt land en sérhæfir sig í akstri um Norðurausturland. Fyrirtækið býður upp á skoðunarferðir með eða án leiðsagnar og starfsfólk þess hefur áralanga og fjölþætta reynslu af undirbúningi og framkvæmd ferða af margvíslegum toga. Fyrirtækið á myndarlegan bílaflota, hópferðabíla af flestum stærðum og gerðum en einnig jeppa og minni bíla.
Á myndinni eru Röðull Reyr Kárason, Rúnar Óskarsson og Hulda Jóna Jónasdóttir hjá Fjallasýn