Terra Nova og systurfélagið Iceland Tours hlutu á dögunum viðurkenningu Vakans og eru því fullgildir þátttakendur í Vakanum. Jafnframt fékk fyrirtækið bronsmerki í umhverfiskerfi Vakans. Terra Nova er leiðandi ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi og hefur verið starfrækt í tæpa fjóra áratugi. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru fyrst og fremst ferðaheildsalar og ferðaskrifstofur sem bjóða upp á ferðir til Íslands en einstaklingum er boðið upp á fjölbreyttar pakkaferðir um Ísland undir merkjum Iceland Tours. Terra Nova er jafnframt með starfsemi í Noregi. Velta fyrirtækisins á liðnu ári var um 2,2 milljarðar og starfsmannafjöldi er um 40 manns. Framkvæmdastjóri Terra Nova er Bjarni Hrafn Ingólfsson.
Terra Nova hefur í áratugi lagt áherslu á gæði og öryggi í þjónustu sinni og er þátttaka í Vakanum enn eitt skrefið til staðfestingar á því. Við erum mjög stolt af þessum áfanga sagði Elísabet Eydís Leósdóttir gæðastjóri Tera Nova, sem leitt hefur alla þá ítarlegu vinnu sem átt hefur sér stað í aðdraganda þessarar viðurkenningar. Með inngöngu okkar í Vakann undirstrikum við áherslur okkar á að gæða- og öryggismálum sé gert hátt undir höfði og þau séu í föstum skorðum, þar með aukum við öryggi viðskiptavina okkar og jákvæða upplifun þeirra. Með virkri stjórnun þessara þátta og aukinni umhverfisvitund stuðlum við jafnframt að góðum rekstri fyrirtækisins með því að minnka líkur á neikvæðum þáttum en auka jákvæða þætti. Með vinnunni sem þessu fylgdi endurskoðuðum við starfsumhverfi Terra Nova og verklagsreglur og teljum okkur betur í stakk búin til að takast á við alla þætti starfseminnar.