Á meðfylgjandi mynd eru Sigurður Bjarni Sveinsson stofnandi og eigandi SIADV, Dagný H.Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra, Helga Luicie Káradóttir öryggisfulltrúi og leiðsögumaður SIADV, Björg Árnadóttir framkvæmdastjóri SIADV ásamt starfsfólki.
South Iceland Adventure hlaut í vikunni viðurkenningu Vakans, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar. Sannast þar enn og aftur að Vakinn hentar fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum.
South Iceland Adventure (SIADV) er ungt ferðaþjónustufyrirtæki á Hvolsvelli þar sem starfa að mestu vinir og fjölskylda. Eigendur eru 3 ungir menn sem hafa allir sterka tengingu við svæðið. Fyrirtækið er bæði ferðaskipuleggjandi og ferðaskrifstofa.
Markmið SIADV er að skapa upplifun fyrir ferðamanninn með persónulegri þjónustu, staðbundinni þekkingu, ævintýraljóma og öryggi. Sérstök áhersla hefur verið á Suðurlandið og hálendi Íslands.
Helga Lucie Káradóttir, öryggisfulltrúi og leiðsögumaður stóð fyrir umsóknarferlinu hjá SIADV og tók á móti VAKANUM fyrir hönd fyrirtækisins. Dagný H. Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Vakans og Ferðamálastofu. Þá kom sveitarstjórn Rangárþings eystra ásamt sveitarstjóra, Ísólfi Gylfa Pámassyni, færandi hendi með blómvönd og viðurkenningu frá sveitarfélaginu í tilefni dagsins.