Opnað hefur verið að nýju fyrir umsóknir í Vakann. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að breyttu fyrirkomulagi úttekta og því ekki verið tekið á móti umsóknum.
Helsta breytingin er sú að Ferðamálastofa hefur gengið til samstarfs við nokkrar skoðunar- og vottunarstofur vegna úttekta og býðst umsækjendum svo og núverandi þátttakendum að velja á milli eftirtalinna fyrirtækja:
• BSI á Íslandi
• iCert
• Inspectionem
• Vottunarstofan Tún
Nýtt fyrirkomulag felur einnig í sér nýja hugsun þar sem umsækjendur taka aukna ábyrgð og virkari þátt í því að innleiða og viðhalda virku gæða- og umhverfiskerfi í fyrirtæki sínu.
Hér á vefnum má finna nánari upplýsingar um nýja fyrirkomulagið. Sérstaklega er bent á nýja útgáfu af almennum gæðaviðmiðum sem hafa verið stytt og gerð hnitmiðaðri og eiga nú við báða flokka; gistingu og ferðaþjónustu aðra en gistingu.
Loks má geta þess að stjörnuflokkun verður áfram í boði fyrir hótel, en annars konar gistiþjónustu býðst að verða viðurkennt (certified) gistiheimili, viðurkennt hostel, viðurkennt tjaldsvæði o.s.frv.
Það er trú Ferðamálastofu að nýja fyrirkomulagið efli og styrki Vakann til framtíðar og tryggi um leið gæði, öryggi og umhverfisvitund í íslenskri ferðaþjónustu.
Við hvetjum alla til að kynna sér málið hér á vefnum en einnig er hægt að hafa samband við Öldu Þrastardóttur alda@ferdamalastofa.is og Áslaugu Briem aslaug@ferdamalastofa.is