Mynd: Jónas Marinósson, Elín Einarsdóttir og Einar Freyr Elínarson frá Sólheimahjáleigu; Sigurlaug Gissurardóttir og Jón Kristinn Jónsson frá Brunnhóli; Sigríður Diljá Vagnsdóttir frá Narfastöðum og Berglind Viktorsdóttir og Sævar Skaptason frá Ferðaþjónustu bænda.
Þrjú gistiheimili innan Ferðaþjónustu bænda fengu viðurkenningu Vakans á uppskeruhátíð samtakanna þann 16. nóvember síðastliðinn. Þetta eru gististaðirnir Gistihúsið Narfastöðum, Brunnhóll, og Sólheimahjáleiga sem nú flokkast öll sem 4 stjörnu gistiheimili. Að auki fengu Narfastaðir gull-merki í umhverfiskerfi Vakans og Brunnhóll brons-umhverfismerki. Óskum við öllum þremur innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.
Gistihúsið Narfastöðum hlaut viðurkenningu Vakans sem 4 stjörnu gistiheimili og jafnframt gull-umhverfismerki Vakans fyrir áherslur sínar í sjálfbærni- og umhverfismálum.
Gistihúsið á Narfastöðum er 43 herbergja fjölskyldurekið gistihús sem kúrir undir brekkurótum syðst í Reykjadal, mitt á milli Húsavíkur og Mývatns. Umfangsmikil skógrækt, fjölbreitt fuglalíf og fornminjar einkennir umhverfi gistihússins og verið er að leggja síðustu hönd á merktar gönguleiðir til að gefa ferðamönnum kost á að kynnast menningarsögunni á nýjan hátt. Frá upphafi hefur áhersla verið lögð á samfélagslegar skyldur fyrirtækisins við umhverfi sitt og samfélag og áhersla verið lögð á að ráða heimafólk til starfa og hefur gefist afar vel. Eigendur og staðarhaldarar þau Unnsteinn Ingason og Rósa Ösp Ásgeirsdóttir.
Sigríður Diljá Vagnsdóttir tók við viðurkenningu Narfastaða og er hér í miðið á myndinni að ofan á milli þeirra Öldu Þrastardóttur og Áslaugar Briem frá Vakanum.
Gistiheimilið Brunnhóll hlaut viðurkenningu Vakans sem 4 stjörnu gistiheimili og jafnframt brons-umhverfismerki Vakans.
Sigurlaug Gissurardóttir og Jón Kristinn Jónsson hafa rekið ferðaþjónustu undir merkjum Ferðaþjónustu bænda frá árinu 1986. Fyrst í smáum stíl en með aukinni og breyttri eftirspurn hefur fyrirtækið vaxið og í dag er boðið upp á gistingu í 22 herbergjum, auk veitingasölu og hins margrómaða Jöklaíss, sem framleiddur er á bænum en yngri kynslóð fjölskyldunnar hefur um árabil haft veg og vanda af mjólkurframleiðslunni. Þess ber einnig að geta að gestir á Brunnhól geta fylgst með atferli kúnna í fjósinu sem og mjöltum í beinni útsendingu í sjónvarpskerfi gistiheimilisins.
Gæðavottun er ekkert nýtt fyrir okkur hér á Brunnhóli. Við erum aðilar að Ferðaþjónustu bænda sem hefur um árabil rekið eigið gæðakerfi. Hins vegar teljum við mikilvægt að okkar gististaður sé metinn af óháðum aðila, á sama skala og öll önnur ferðaþjónusta í landinu. Fögnuðum við því tilkomu Vakans," segir Sigurlaug Gissurardóttir . Eftir að hafa farið í gegnum gæðaflokkunarferli Vakans stöndum við með fyrirtæki sem er betur í stakk búið til að veita gestum okkar góða þjónustu og bregðast við þeim atvikum sem upp á kunna að koma, segir Sigurlaug ennfremur. Á myndinni eru þau Sigurlaug Gissurardóttir og Jón Kristinn Jónsson staðarhaldarar á Brunnhóli.
Sólheimahjáleiga hlaut viðurkenningu Vakans, 4 stjörnu gistiheimili. Sólheimahjáleiga er fjölskyldurekið gistihús og sveitabær þar sem lögð er áhersla á friðsælt umhverfi fyrir gesti í nálægð við náttúruna og búskapinn. Sama fjölskyldan hefur byggt staðinn síðan um 1850. Sólheimahjáleiga nýtur nálægðar við margar af þekktustu náttúruperlum Suðurstrandarinnar. Sala á gistingu hófst í smáum stíl á áttunda áratug síðustu aldar og þá sem heimagisting en frá árinu 1985 hefur Sólheimahjáleiga verið innan vébanda Ferðaþjónustu bænda. Gistihúsið er opið allan ársins hring og er áhersla lögð á að gestir upplifi íslenska sveit og fái persónulega þjónustu.
"Við vorum afskaplega ánægð þegar gistihluti Vakans var tilbúinn. Í vaxandi samkeppni er svarið að gera eins vel og maður getur og því var Vakinn kærkomið verkfæri. Við nutum góðs af því að hafa verið svo lengi í Ferðaþjónustu bænda því mjög margt af því sem Vakinn tekur út, var jafnframt hluti af gæðastefnu þeirra samtaka. Við hófumst handa við að undirbúa úttektina í mars sl. Við fórum yfir öll gögn sem við áttum og útbjuggum það sem upp á vantaði. Þessa vinnu nýttum við í sumartörnina og gerðum svo endurmat nú í haust. Við nýttum okkur jafnframt heilmikið þá þjónustu sem Vakinn býður upp á bæði á heimasíðu og ráðgjöf í tölvupósti. Útkoman var afskaplega ánægjuleg fyrir okkur því niðurstaðan eftir úttektarferlið var 4 stjörnu gistihús. Úttektin styrkti okkur í þeirri trú að við erum að gera ágæta hluti en jafnframt áskorun um að gera enn betur," segir Elín Einarsdóttir einn eigenda Sólheimahjáleigu.
Jónas Marinósson, Elín Einarsdóttir og Einar Freyr Elínarson tóku við viðurkenningu Sólheimahjáleigu.