Sá ánægjulegi atburður átti sér stað í vikunni að Ferðamálastofa og H:N MARKAÐSSAMSKIPTI skrifuðu undir samstarfssamning vegna VAKANS, en framundan er kynningarherferð á VAKANUM fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og innlenda ferðamenn.
Jafnframt er unnið að því að leggja drög að kynningu á VAKANUM fyrir erlendan markað, en sú kynning hefst formlega á Vestnorden í byrjun október. Töluverðar væntingar eru til þessa samstarfs, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska ferðaþjónustu að fyrirtækin sameinist um að auka gæði, öryggi og umhverfisvitund og gerist þátttakendur í nýja gæða- og umhverfiskerfinu.