Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hlutu á dögunum viðurkenningu VAKANS og silfurmerki í umhverfiskerfinu. Fyrirtækið var stofnað árið 1994 af fjórum fjallaleiðsögumönnum sem vildu fyrst og fremst auka gæði og fagmennsku í leiðsögn. Markmiðið var að fara ótroðnar slóðir með innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn og þannig opna augu fólks fyrir ferðamennsku á fjöllum.
Gæða- og umhverfismál hafa ávallt staðið fyrirtækinu nærri og strax frá upphafi var lögð mikil áhersla á að stuðla að verndun viðkvæmrar náttúru með hugmyndafræðina um að skilja ekki eftir sig spor í náttúrunni að leiðarljósi. Þjálfun leiðsögumanna hefur verið stór þáttur í uppbyggingu fyrirtækisins. Til að mynda var nýsjálenskt þjálfunarkerfi fyrir jökla- og fjallaleiðsögumenn innleitt með góðum árangri en þjálfunarkerfið stuðlar að auknu öryggi, gæðum og þjónustu í ferðum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna.
Við óskum Fjallaleiðsögumönnum innilega til hamingju með þessa viðurkenningu á starfsemi sinni um leið og við bjóðum þá velkomna til liðs við VAKANN. Á myndinni má sjá Elías Bj. Gíslason Ferðamálastofu, Guðrúnu Jóhannsdóttur, Elínu Sigurveigu Sigurðardóttur, Einar Torfa Finnsson öll frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og Áslaugu Briem frá Ferðamálastofu.