I heart Reykjavík er lítið fjölskyldufyrirtæki sem byrjaði sem eins manns blogg fyrir sex árum síðan. Fyrir þremur árum síðan fór bloggarinn, Auður Ösp Ólafsdóttir, að bjóða upp á gönguferðir um miðborg Reykjavíkur og núna starfa fjórir hjá fyrirtækinu.
Frá upphafi voru góðir starfshættir hafðir í heiðri og lögð áhersla á samfélagslega ábyrgð og heiðarleika. Hópar í gönguferðum eru litlir til að geta sinnt hverjum gesti vel og til að hlífa nærsamfélaginu við ágangi. Þegar fyrirtækið stækkaði og fékk ferðaskrifstofuleyfi lá beint við að stefna líka að gæðaviðurkenningu Vakans.
Margir verkferlar voru þegar skrifaðir niður og öllu haldið til haga, en undirbúningsvinna fyrir úttekt hjálpaði til við að fara yfir það sem mátti bæta. Að vera með viðurkenningu Vakans hjálpar líka til við að ýta við samstarfsaðilum sem geta bætt sig. Ég er viss um að Vakinn sé hjálplegt verkfæri fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi, fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum segir Auður Ösp.
Starfsmenn I heart Reykjavík tóku á móti viðurkenningu Vakans nýlega og halda glaðir inn í sumarið, tilbúnir til að deila sinni sýn á Reykjavík með gestunum og að sjálfsögðu með öryggi og gæði að leiðarljósi.