Humarhöfnin á Höfn í Hornafirði er fyrsti veitingastaðurinn á landinu til að hljóta viðurkenningu VAKANS en viðmið fyrir veitingastaði voru nýlega samþykkt og gerð opinber. Humarhöfnin hlýtur ennfremur bronsmerki í umhverfiskerfi VAKANS.
Fjölbreytnin eykst
Með þessu eflist VAKINN enn frekar og fjölbreytni fyrirtækja innan kerfisins eykst. "Við viljum einmitt leggja mikla áherslu á það að VAKINN er fyrir öll fyrirtæki í ferðaþjónustu smærri sem stærri," segir Áslaug Briem, verkefnastjóri gæðamála hjá Ferðamálastofu. Hún segist afar glöð með þátttöku Humarhafnarinnar og hvetur fleiri veitingastaði svo og önnur fyrirtæki til að kynna sér viðmið VAKANS.
Hæfir vel í humarbænum Höfn
Humarhöfnin var opnuð sumarið 2007 af tvennum hjónum, þeim Ara Þorsteinssyni og Maríu Gísladóttur auk Önnu Þorsteinsdóttir og Ólafs Vilhjálmssonar. Eins og nafnið gefur til kynna þá sérhæfir Humarhöfnin sig í humarmáltíðum, sem hæfir vel í humarbænum Höfn!
Veitingastaðurinn er í staðsettur í verslunarhúsi Kaupfélags Austur-Skaftafellssýslu, en húsið var alfarið byggt af heimamönnum á árunum 1936-1937. Lögðu eigendur metnað sinn í að halda í sjarma hússins við endurgerð þess og óhætt er að segja að gestir Humarhafnarinnar njóti sérstæðrar humarupplifunar í einstöku umhverfi. Þess má einnig að geta að Humarhöfnin hlaut umhverfisviðurkenningu Hornafjarðar fyrir snyrtilegt umhverfi fyrirtækisins árið 2013.
Hollt fyrir öll fyrirtæki
Töluvert hefur verið að gera undanfarið í að taka við umsóknum og leiðbeina fólki sem hefur áhuga á sækja um í VAKANN að sögn Áslaugar, þannig að vakningin er alltaf að verða meiri sem er mjög ánægjulegt. Að sögn Maríu eiganda Humarhafnarinnar er vinnan við umsóknarferlið vel þess virði að fara út í og bætir við að það sé ofsalega hollt fyrir öll fyrirtæki að fara í svona heildstæða naflaskoðun í sínum rekstri."
Styttist í gistiviðmiðin
Þess má geta að viðmið fyrir gististaði munu svo verða tekin í notkun á fyrrihluta næsta árs og þá geta þeir sem eru með gistirekstur farið að sækja um. Þar með verður VAKINN orðinn að heildstæðu gæða-og umhverfiskerfi þar sem markmiðin eru að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi.
Á myndinni afhendir Árdís Erna Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Ríki Vatnajökuls ehf., eigendum Humarhafnarinnar viðurkenningu VAKANS fyrir hönd Ferðamálastofu.