Hjónin Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann keyptu Friðheima árið 1995 og búa þar ásamt fimm börnum sínum. Talið frá vinstri: Rakel Theodórsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Friðheima, Helena, Áslaug Briem frá Vakanum og Knútur Rafn.
Friðheimar í Reykholti í Bláskógabyggð er nýjasti þátttakandinn í Vakanum og fyrsta fyrirtækið í uppsveitum Árnessýslu til að fá viðurkenningu Vakans. Hún var afhent við hátíðlega athöfn í gær og við sama tækifæri vígt nýtt hús sem hýsir eldhús, skrifstofur og fundaraðstöðu.
Rauði þráðurinn í starfsemi Friðheima er tómatar í ýmsum myndum eins og segir á vef fyrirtækisins en að grunni til eru Friðheimar garðyrkjustöð þar sem tómatar eru ræktaðir allan ársins hring. Gróðurhúsin eru opin og fá gestir innsýn í ræktunina með stuttum og fræðandi fyrirlestri. Þar má líka skoða sýningu um ylrækt á Íslandi og til sölu eru matarminjagripir á borð við tómatsultu, gúrkusalsa og tómathressi, þannig að gestum býðst að taka gómsætar minningar með sér heim.
Rómaður veitingastaður er einnig í gróðurhúsinu þar í boðið er að snæða tómatsúpu og nýbakað brauð ásamt öðru góðgæti í notanlegu umhverfi innan um tómatplönturnar.
Síðast en ekki síst er allt sumarið boðið upp á hestasýningar með skemmti- og fræðsluívafi, ásamt heimsókn í hesthúsin sem er nú í boði allt árið.
Sem sjá má af þessi upptalningu er starfsemin fjölbreytt en viðurkenning Vakans tekur til allrar ferðaþjónustustarfsemi Friðheima ásamt því sem veitingastaðurinn fær sérstaka vottun. Þá taka Friðheimar þátt í umhverfisþætti Vakans með brons-viðurkenningu.
Við í Friðheimum leggjum mikla áherslu á að bjóða upp á góða og faglega þjónustu sem og gæða vöru. Til að geta gert það sem best verður á kosið er mikilvægt að hlúa vel að starfsfólkinu, samfélaginu, umhverfinu og gestunum. með þátttöku í Vakanum höfum við náð að halda vel um þessa þætti og skapa okku stefnu sem nýtist okkur í þessu utanumhaldi sem skilar sér svo aftur í hagkvæmari rekstri fyrirtækisins, segir Rakel Theodórsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Friðheima. Við erum stolt af því að vera þátttakendur í Vakanum þar sem markmiðið er að stuðla að góðri og ábyrgri ferðaþjónusta á Íslandi sem og sjálfbærum atvinnurekstri. Við viljum líka þakka starfsfólki Vakans fyrir frábæra handleiðslu sem og mjög aðgengileg og gagnleg hjálpargögn, bætir Rakel við.
Starfsfólk Vakans og Ferðamálastofu býður Friðheima hjartanlega velkomna og lýsir yfir ánægju með að fá þetta öfluga fyrirtæki til liðs við gæða- og umhverfiskerfi íslenskrar feðraþjónustu.