Eva Silvernail framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, Elva Hjörleifsdóttir veitingastjóri - Ský restaurant og Kolfinna Birgisdóttir hótelstjóri með viðurkenningu Vakans.
CenterHotel Arnarhvoll hefur farið í gegnum gæðaúttekt Vakans og flokkast nú sem 4ra stjörnu hótel samkvæmt viðurkenndum gæðaviðmiðum Vakans fyrir hótel, sem byggja á viðmiðum hotelstars.eu. Ennfremur fær veitingastaðurinn Ský, sem staðsettur er á efstu hæð hótelsins, gæðaviðurkenningu Vakans.
Langtímaáherslur CenterHotels hafa verið að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu með sterka gæðaímynd og að við séum vel þekkt og virt fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu innanlands sem og erlendis. Við tökum stolt á móti þessari gæðaviðurkenningu og lítum á hana sem staðfestingu á því að sú vinna sem við höfum lagt upp með hvað varðar gæðamál sé að skila sér. Fleiri hótel innan keðjunnar fara brátt í úttektarferli og munu fylgja í kjölfarið á næstu misserum segir Eva Silvernail, framkvæmdastjóri rekstarsviðs CenterHotels.
Við höfum unnið ötullega að því að hótelkeðjan búi yfir sterkri og jákvæðri ímynd og sé því eftirsóttur vinnustaður sem tryggt getur sér aðgang að nægu og vel þjálfuðu starfsfólki. Mikið er lagt upp úr því að starfsmenn geti þróast í starfi innan fyrirtækisins með nýliðakennslu, starfsþjálfun og setu í námskeiðum í CenterHotels skólanum sem hefur verið starfræktur allt árið um kring síðan 2013. Ég byrjaði sjálf í móttökunni hjá CenterHotels árið 2010 og var orðin hótelstjóri á CenterHotel Arnarhvoli árið 2013. Það er gaman að segja frá því að það eru mörg dæmi innan fyrirtækisins um svona jákvæða starfsþróun, segir Kolfinna Birgisdóttir, hótelstjóri á CenterHotel Arnarhvoli.
CenterHotels er fjölskyldurekin hótelkeðja til rúmlega 20 ára með 6 hótel innan sinna vébanda sem öll eru staðsett í miðborg Reykjavíkur. Á CenterHotels starfa rúmlega 200 manns allt árið um kring og fer heilsárs starfsmönnum fjölgandi ár hvert.
Við hjá Vakanum og Ferðamálastofu óskum forsvarsmönnum og starfsfólki öllu innilega til hamingju með frábæran áfanga og gott samstarf.