Í samræmi við sífellt aukið vægi umhverfis- og samfélagsmála og sjálfbærrar þróunar hefur um nokkurt skeið verið stefnt að því að þátttaka í umhverfiskerfi Vakans verði ekki lengur valkvæð eins og verið hefur hingað til heldur taki allir þátt. Í dag eru 63% þátttakenda í Vakanum bæði með gæða- og umhverfisflokkun.
Töluverð umræða er um samfélagslega ábyrgð innan greinarinnar og yfir 300 fyrirtæki hafa skrifað undir yfirlýsingu um Ábyrga ferðaþjónustu. Á haustdögum staðfestu framkvæmdastjórar SAF og Íslenska ferðaklasans siðareglur fyrir ferðaþjónustu frá Alþjóðaferðamálastofnuninni (UNWTO). Í ljósi framangreinds og í tilefni af því að yfirstandandi ár er af Sameinuðu þjóðunum tileinkað sjálfbærri ferðaþjónustu hefur stýrihópur Vakans samþykkt að frá 1. janúar 2019 verði allir þátttakendur í Vakanum að taka þátt í umhverfishluta hans og uppfylla að lágmarki skilyrði fyrir brons viðurkenningu.
Hér er um að ræða afar jákvætt og í raun sjálfsagt skref fyrir íslenska ferðaþjónustu sem á framtíð sína m.a. undir því að hreinleika landsins og náttúruperlum sé viðhaldið.
Starfsfólk Vakans er reiðubúið að veita allar upplýsingar um umhverfiskerfið og áðurnefndar breytingar sem og annað er lýtur að Vakanum. Um leið er vert að benda á að umhverfisviðmiðin hafa líkt og önnur viðmið Vakans verið endurskoðuð á árinu 2017 og þriðja útgáfa hefur litið dagsins ljós. Þátttakendum er tryggður ákveðinn aðlögunartími, engu að síður eru allir hvattir til að kynna sér viðmiðin á vef Vakans sem fyrst.