Fyrirtækið Hidden Iceland sem hlaut vottun frá vottunarstofunni iCert samkvæmt gæða- og umhverfisviðmiðum Vakans á síðasta ári, hefur nú gert enn betur og fengið gullvottun í umhverfishluta Vakans en áður var fyrirtækið með bronsmerki.
Verndun íslenskrar náttúru og umhverfismál eru Hidden Iceland afar mikilvæg. Allur rekstur Hidden Iceland hefur verið kolefnisjafnaður frá upphafi og er sífellt leitast eftir því að finna leiðir til að lágmarka áhrif á nærumhverfið samhliða vaxandi umsvifum í rekstri. Scott Drummond framkvæmdastjóri segir „Frá upphafi höfðum við haft gæða- og umhverfisviðmið Vakans að leiðarljósi varðandi það hvernig best væri að reka ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi á áhrifaríkan hátt og við höfum stöðugt bætt okkur í gegnum árin. Við erum mjög stolt af því að hafa hlotið þessa viðurkenningu núna.“
Við hjá Ferðamálastofu og Vakanum óskum starfsfólki Hidden Iceland innilega til hamingju með glæsilegan árangur.