Vogafjós komið í Vakann

Nýjasta fyrirtækið innan Vakans er Vogafjós í Mývatnssveit. Er mikið ánægjuefni að fá til liðs við Vakann aðila frá þessu sterka ferðaþjónustusamfélagi.

Ragnhildur Hólm og Ólöf Hallgrímsdóttir með viðurkenningu Vakans.

Nýjasta fyrirtækið innan Vakans er Vogafjós í Mývatnssveit. Er mikið ánægjuefni að fá til liðs við Vakann aðila frá þessu sterka ferðaþjónustusamfélagi.

Fjölskyldurekstur

Vogafjós í Mývatnssveit er fjölskyldurekið fyrirtæki í eigu Ólafar Þ. Hallgrímsdóttur og manns hennar Jóns Reynis Sigurjónssonar og Leifs Hallgrímssonar og konu hans, Gunnhildar Stefánsdóttir.

Gisting og veitingastaður

Ferðaþjónusta hefur verið rekin síðan 1999 en þá var opnað kaffihús þar sem gestum gafst tækifæri á að horfa inn í fjós og fylgjast með mjöltum. Árið 2005 voru tekin í notkun 20 herbergi en í dag eru þau orðin 26 talsins. Árið 2009 var veitingastaðurinn stækkaður og rúmar nú um 80 gesti. Á jörðinni er einnig hefðbundinn búskapur, nautgripir og sauðfé.

Áhersla á nærumhverfið

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á afurðir beint frá býli og afurðir búsins notaðar á veitingastaðnum. Einnig er unnið með bændum í nærumhverfinu og einblínt á svæðisbundnar og heimagerðar veitingar sem og persónulega þjónustu. „Hugmyndafræðin að baki rekstrinum er að halda íslenskri menningu hátt á lofti og styrkja samfélagið. Það er gaman frá því að segja og við erum stolt af því að fyrirtækið hefur vaxið og dafnað. Í byrjun var engin heilsársstaða en í dag höfum við um 40 starfsmenn þegar mest lætur,“ segir Ólöf.

„Innleiðing Vakans hvetur okkur til að gera enn betur og það er ósk okkar að gestirnir okkar sjái að við leggjum metnað í að uppfylla gæðakröfur og halda þeim,“ bætir hún við.